Kvenfélagið gaf fjórar iPad tölvur

Það var mikið um dýrðir í leikskólanum Örk í gær þegar foreldrafélag leikskólans hélt sína árlegu vorhátíð. Leikskólanum barst góð gjöf frá Kvenfélaginu Einingu í tilefni dagsins.

Lögreglubíll, slökkviliðsbíll og sjúkrabíll voru á staðnum og voru starfsmenn með hverjum bíl þannig að börn og fullorðnir gátu forvitnast um bílana og allt það sem fylgir störfum þessa fólks. Það þarf ekki að spyrja að því að bílarnir vöktu mikla lukku.

Opið var inn á allar deildir leikskólans og gátu því foreldrar og aðrir gestir skoðað afrakstur starfsins í vetur. Úti var boðið upp á grillaðar pylsur frá Sláturfélagi Suðurlands, börnin gátu fengið andlitsmálningu, allir gátu málað á stórt samvinnumálverk og svo var auðvitað hægt að leika sér í leiktækjunum í garðinum.

Af þessu tilefni afhenti Kvenfélagið Eining, leikskólanum, fjórar iPad tölvur sem keyptar voru fyrir það fé sem safnaðist á Góuballsgleðinni í vetur. Tölvur sem þessar eru kærkomin viðbót við þau kennslutæki sem fyrir eru í leikskólanum.