Kvenfélagið gaf fæðingardeildinni veglega gjöf

Nýverið fékk fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi heimsókn frá hópi kvenna í Kvenfélagi Selfoss. Erindið var að afhenta formlega peningagjöf, hálfa milljón króna, sem gefin var í byrjun árs.

Gjöfinni hefur þegar verið ráðstafað og keypt var á deildina hægindastóll og sængurföt í fjölskylduherbergi, færanlegt glaðloftstæki, bluetooth hátalari, pelahitari og hitaketill.

Sigrún Kristjánsdóttir yfirljósmóðir þakkaði kvenfélagskonum innilega fyrir og hafði á orði hversu vel styrkurinn kæmi fyrir deildina.

Kvenfélag Selfoss hefur staðið þétt við bakið á HSU og fært stofnunni margar gjafir í gegnum tíðina. Í frétt frá stofnuninni segir að slíkur stuðningur sé ómetanlegur og verði seint fullþakkaður.