Kveikt á jólaljósunum í næstu viku

Fimmtudaginn 15. nóvember næstkomandi verður kveikt á jólaljósunum í Árborg við hátíðlega athöfn fyrir framan Ráðhús Árborgar og Bókasafnið.

Kveikt verður á slaginu kl. 18 en stutt hátíðardagskrá byrjar kl. 17:40. Þá spila ungmenni úr félagsmiðstöðinni Zelsíuz sem og barna- og unglingakór Selfosskirkju undir stjórn Edit Molnár. Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs flytur stutt ávarp í lokinn áður en yngsta afmælisbarnið sem búsett er í Sveitarfélaginu Árborg kveikir á ljósunum með aðstoð starfsmanna sveitarfélagsins.

Skátafélagið Fossbúar býður gestum og gangandi upp á heitt kakó og Bókasafn Árborgar á Selfossi er opið en þar er t.d. opin myndlistarsýning Halls Karls í Listagjánni.

Tendrun jólaljósana markað upphaf Jóla í Árborg en mikið verður um að vera í sveitarfélaginu í tengslum við jólahátíðina. Gefið verður út sérstakt viðburðadagatal fyrir desembermánuð þar sem allir ættu að finna sér eitthvað að gera við hæfi. Jólagluggarnir verða opnaðir hver af öðrum frá 1. til 24.desember. Hver gluggi mun geyma sína leyndardóma en sérstakur leikur verður í gangi fyrir börnin tengdur gluggunum sem verður útskýrður hérna síðar.

Jólatorgið opnar síðan í miðbæjargarðinum á móts við Ölfussárbrú laugardaginn 8. desember kl.14. Þann sama dag koma jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli en þeir stoppa við Jólatorgið til að kveikja á stóra torgtrénu og syngja og tralla með börnunum. Torgið verður síðan iðandi af lífi allar helgar fram til jóla en skemmtidagskrá verður á sviðinu og fjölbreyttur varningur til sölu í jólahúsunum.