Kveikt á bæjartrénu á Selfossi

Jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli gerðu sér ferð á Selfoss í dag til þess að kveikja á jólatré bæjarins við Tryggvatorg.

Það var frábær fjölskyldustemmning í miðbæ Selfoss í dag og mikill mannfjöldi við Tryggvatorg. Eftir að Karlakór Selfoss hafði sungið jólalög á sviðinu komu jólasveinarnir akandi á grænni rútu yfir Ölfusárbrú og heilsuðu upp á krakkana.

Grýla, Leppalúði og fleiri afkomendur þeirra létu líka sjá sig og eftir að ljósin höfðu verið kveikt á trénu og allir höfðu sungið sig hása hélt hersingin aftur upp í fjall.

Þeir staldra þó ekki lengi við þar því nú fara þeir að tínast til byggða, einn og einn. Stekkjastaur leggur fyrstur af stað í nótt.

Fyrri greinFSu aftur í 2. sæti
Næsta greinMetangasframleiðsla arðbær með tilkomu Hvítárbrúar