Kvartað yfir þyrluflugi yfir fuglafriðlandinu

Fyrr í vikunni barst lögreglunni á Suðurlandi ábending frá vegfaranda vegna þyrlu sem hafði verið flogið oft og mjög lágt yfir fuglafriðlandið í Flóa, og lent þar a.m.k. í tvígang.

Þyrlan var ljós að lit og var á ferðinni um friðlandið á milli kl. 11:30 og 14:00.

Jafnframt var þyrlunni flogið lágt yfir æðarvarp sem er í eyju í Ölfusá, vestan friðlandsins. Friðlýsing æðarvarps gildir frá og með 15. apríl til og með 14. júlí ár hvert og taldi vegfarandinn þetta flug vera til þess fallið að spilla varpi fugla á svæðinu.

Af þessu tilefni beinir lögreglan á Suðurlandi því til þeirra sem velja þennan ferðamáta að gæta að umhverfi sínu og valda ekki spjöllum eða óþarfa ónæði með athöfnum sínum.

Friðlandið nær með austurbakka Ölfusár frá Nesósi skammt norðan Óseyrarbrúar að landamerkjum Sandvíkurhrepps í Straumnesi og spannar það yfir stóran hluta jarðanna Óseyrarness og Flóagafls.

Fyrri greinViðbyggingin við Sundhöllina vígð
Næsta greinHrafnhildur valin íþróttamaður ársins