Kvartað undan ólöglegri losun á rusli

Starfsmenn sveitarfélagsins Árborgar hafa í tvígang þurft að fjarlægja ruslahrúgu þar sem áramótabrenna er vanalega haldin á Stokkseyri. Svo gæti farið að sveitarfélagið fái ekki leyfi fyrir áramótabrennu við Stokkseyri í ár.

Bæjaryfirvöld hafa sent frá sér tilkynningu þar sem vakin er athygli á því að slík losun á úrgangi sé óhemil nema á samþykktum mótttökustöðvum eða í sorpílát.

Starfsmenn frá þjónustumiðstöð Árborgar fóru á staðinn þegar fyrst fréttist af hrúgunni og fjarlægðu hana, en fljótlega var annar haugur orðinn til á sama stað.

Haugurinn inniheldur mikið af óæskilegu sorpi sem ekki má brenna og skapar það verulegan kostnað fyrir sveitarfélagið að þurfa að safna því öllu saman og koma á haugana. Því til viðbótar hefur blöndun sorps við annað í hrúgunni valdið því að söfnun í brennuna, sem hefur hafist um þetta leiti undanfarin ár, tefst talsvert. Haldi áfram sem horfir má búast við því að sveitarfélagið fái ekki tilskilin leyfi til að halda áramótabrennu við Stokkseyri í ár.

Í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum eru vegfarendur sem verða varir við ólöglega sorplosun beðnir að tilkynna um slíkt til bæjaryfirvalda eða til lögreglunnar á Selfossi.

Fyrri greinÖxará flæðir yfir bakka sína
Næsta greinVilja að samvinnuhreyfingarinnar verði minnst í miðbænum