Kunnátta í skyndihjálp getur ráðið úrslitum

Fjórum sinnum í liðinni viku var lögregla og sjúkralið á Suðurlandi kallað til vegna alvarlegra bráðaveikinda og í tveimur tilvikanna var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út.

Í einu tilvikinu báru endurlífgunartilraunir árangur og að því er best er vitað mun viðkomandi að líkindum ná heilsu að fullu. Þar réði úrslitum skyndihjálparkunnátta annarra heimilismanna.

Í hinum tveimur tilfellunum brugðust viðstaddir hárrétt við og hófu þegar endurlífgun. Í öðru tilvikinu tókst að ná hjarta viðkomandi í takt á ný en ekki reyndist unnt að bjarga viðkomandi og voru þessir tveir aðilar úrskurðaðir látnir á sjúkrahúsi í Reykjavík.

Í fjórða tilfellinu reyndist viðkomandi látinn þegar að var komið.

Lögreglan hvetur fólk til þess að sækja námskeið í skyndihjálp því við vitum aldrei hvenær slíkrar þekkingar getur verið þörf. Slík námskeið eru t.d. reglulega í boði hjá Rauða krossi Íslands og upplýsingar um þau að finna á vefnum skyndihjalp.is.

Fyrri greinSektuðu fyrir á þriðju milljón vegna hraðabrota
Næsta greinRaðhúsalengja verðlaunuð í fyrsta skipti