Kúabændur óánægðir með árgjald

Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi mótmælir harðlega upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu.

Félagsráðið fundaði í Björkinni á Hvolsvelli í síðustu viku. Á fundinum kom m.a. mikil óánægja með upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu. Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:

“Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Björkinni, Hvolsvelli 4. okt. 2011 mótmælir harðlega upptöku árgjalds fyrir skýrsluhaldsforritið Huppu.

Kúabændur greiða um eða yfir 50% alls búnaðargjalds sem innheimt er af bændum. Af búnaðargjaldi sem innheimt er af kúabændum fá Bændasamtök Íslands rúm 29%. Fundurinn telur að Bændasamtökin þurfi að sýna fram á, að allir þeir fjármunir nýtist til þjónustu greinarinnar, áður en farið er að krefja kúabændur um frekari gjaldtöku fyrir þjónustu samtakanna.”