Kryddjurtir í gluggann

Undanfarið hefur Umhverfis Suðurland birt punkta um forræktun matjurta fyrir sumarið en heppilegt er að byrja á slíkum vorverkum í mars eða apríl.

Fyrir þá sem fyllast verkkvíða er gott að vita að einnig er hægt að fara styttri leiðina og kaupa eða fá plöntu til að sinna heima.

Kryddjurtir eins og basil, steinselja, mynta, kóríander, graslaukur og fleiri eru aðgengilegar í matvöruverslunum og lítið mál að umpotta eða planta þegar heim er komið. Kryddjurtum er gjarnan sáð mjög þétt fyrir matvöruverslanir og því ráð að ná þeim í sundur við rótina og umpotta með góðu plássi svo hver planta fái að njóta sín og þær kæfi ekki hverja aðra.

Kryddjurtir þarf að vökva mjög vel, sérstaklega meðan hún rótar sig í nýjum potti, og halda á björtum stað, t.d. eldhúsglugga. Klippa má ofan af plöntunum og nýta beint í mat en þannig verður hún einnig mjög þétt og falleg.

Umhverfis Suðurland hvetur Sunnlendinga til að spreyta sig á eigin ræktun og deila afrakstrinum á #umhverfissudurland

 

Fyrri greinSautján Selfyssingar í landsliðsverkefnum
Næsta greinGuðmunda áfram formaður frjálsíþróttaráðs