Krufning benti sterklega til frostlagareitrunar

Matvælastofnun hefur kært til lögreglu meinta eitrun fyrir ketti á Selfossi í byrjun október. Grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir kettinum með því að blanda af ásetningi frostlegi saman við fæðu sem hann hefur komist í.

Kötturinn fór í skoðun og sýnatöku hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands og gáfu niðurstöður til kynna inntöku frostlagar. Málið var í kjölfarið tilkynnt til Matvælastofnunar. Við krufningu á kettinum hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum komu í ljós breytingar í nýrum sem benda sterklega til frostlagareitrunar.

Ekki er vitað hvort málið tengist öðru sambærilegu máli í Hveragerði sumarið 2015 sem einnig var vísað til lögreglu.

Fyrri greinLyngdalsheiði lokuð
Næsta greinHarður árekstur á Hellisheiði