„Krossleggjum fingur og vonum að spennan á byggingarmarkaði minnki“

Dvalarheimilið Ás. Ljósmynd/Dvalarheimilið Ás

Engin tilboð bárust í byggingu nýrrar 22 rýma byggingar við Ás, dvalar- og hjúkrunarheimili í Hveragerði sem Ríkiskaup buðu út í sumar en niðurstöður útboðsins lágu fyrir síðastliðinn mánudag.

Til stendur að stækka hjúkrunarheimilið með nýrri byggingu til að bæta aðstöðu heimilisfólks og í framhaldinu að útrýma tvíbýlum. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að nýja heimilið yrði tilbúið til notkunar á næsta ári.

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, segir í samtali við sunnlenska.is að um verulegt bakslag sé að ræða.

„En þetta er eitthvað sem við ráðum ekki við. Mér heyrist á hinu opinbera að líklega verði um að ræða eins árs töf. Við krossleggjum fingur og vonum að spennan á byggingarmarkaði minnki, og þá með aukinni von um hagstætt tilboð í byggingu nýja heimilisins,“ segir Gísli Páll.

„Í framhaldi af byggingu nýja heimilisins stendur til að lagfæra það eldra með þeim hætti að þar verði eingöngu eins manns herbergi og hvert með sitt baðherbergi. Það er afar brýnt mál að þeim breytingum ljúki sem fyrst en það er ekki mögulegt fyrr en nýja heimilið er risið,“ segir Gísli Páll ennfremur.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í lok ágúst bárust sömuleiðis engin tilboð í hönnun og framkvæmdir nýrrar frístundamiðstöðvar á Selfossi og nýjan miðlunargeymi fyrir Selfossveitur. Þá barst aðeins eitt tilboð í byggingu 2. áfanga Stekkjaskóla á Selfossi og því ljóst að byggingarverktakar hafa nóg að gera þessi misserin.

Fyrri greinRótarskotum komið í mold
Næsta greinVeisla fyrir öll skilningarvit