Krossarnir víkja fyrir vegagerð

Vegagerð við Kögunarhól. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Krossarnir 58 sem staðið hafa við Kögunarhól í Ölfusi hafa nú vikið fyrir vegagerð vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar.

Hannes Kristmundsson og Sigurbjörg Gísladóttir í Hveragerði höfðu veg og vanda að uppsetningu krossanna árin 2006 og 2007 en þeir voru settir upp til minningar um þá sem látist hafa í slysum á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss. Vegna þessa framtaks var Hannes kosinn Sunnlendingur ársins 2006 af lesendum Sunnlenska fréttablaðsins og Suðurland.is.

Það var von Hannesar og Sigurbjargar að Suðurlandsvegur yrði tvöfaldaður og krossarnir áttu einnig að vera áminning um þá nauðsyn að auka öryggi á veginum. Nú þegar vinna er hafin við tvöföldun Suðurlandsvegar er hafin má segja að krossarnir hafi lokið hlutverki sínu, að hluta til, en vera má að þeir verði settir upp aftur.

Á vef Þjóðkirkjunnar er haft eftir Birki Hrafni Jóakimssyni, verkfræðingi hjá Vegagerðinni, að krossarnir hafi verið settir í geymslu og það verði ákveðið síðar hvað gert verður við þá. Birkir Hrafn segir eina hugmyndina vera þá að koma krossunum fyrir ofar í Kögunarhól en ekkert væri ákveðið og það yrði gert í samráði við þá sem hefðu með krossana að gera.

Í nóvember 2006 voru settir upp 52 krossar við Kögunarhól en myndin er tekin í desember 2007 þegar sex krossum var bætt við. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinNý heimasíða fyrir ferðaþjónustuna í Rangárþingi eystra
Næsta greinHamar tapaði í Kórnum