Kröpp lægð nálgast landið í nótt

Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra vill vekja athygli á slæmum veðurhorfum fyrir suður- og vesturland á morgun þriðjudag.

Í nótt nálgast kröpp lægð af Grænlandshafi. Hvessir þá af suðaustri og fer að snjóa sunnan- og vestanlands í fyrramálið.

Eftir hádegi nær suðaustanáttin víða 18-23 m/s sunnan- og vestanlands og snjóar talsvert, en skammvinn hláka kemur í kjölfarið og rignir þá um tíma við sjávarsíðuna. Annað kvöld snýst í suðvestan 8-15 m/s með éljagangi.

Vert er að hafa í huga að í hvössum vindi og ofankomu verður skyggni mjög lítið og líklegt að færð spillist. Sjá nánar á vedur.is.