Krónan opnar verslun á Höfn í Hornafirði

Jarðvinna á svæðinu er nú þegar hafin. Ljósmynd/Aðsend

Krónan mun opna verslun að Hafnarbraut 60 á Höfn í Hornafirði árið 2026 í nýju verslunarhúsnæði. Stefnt er að opnun verslunarinnar, sem verður um 1500 fermetrar að stærð, fyrir næsta sumar eða í síðasta lagi um haustið. Krónan mun því reka 27 verslanir um allt land, þar af tíu á landsbyggðinni.

Markmið Krónunnar með nýrri verslun á Höfn er að veita íbúum og gestum á svæðinu enn betri þjónustu og aðgengi að fjölbreyttu vöruúrvali á sem allra hagstæðasta verði. Þegar fram líða stundir verður einnig boðið upp á heimsendingaþjónustu innanbæjar og til nærliggjandi sveita.

„Okkur hjá Krónunni er sérstaklega kært að tryggja að landsmenn njóti sama úrvals á sama verði, óháð búsetu, hvort sem það er í gegnum Snjallverslun Krónunnar eða í hefðbundinni verslun. Með því að opna á Höfn gerum við íbúum kleift að fá þetta aðgengi og styrkjum um leið þjónustu okkar á landsbyggðinni. Við erum líka stolt af því að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á Höfn og hlökkum til að leggja samfélaginu lið, meðal annars með því að skapa störf, auka fjölbreytni í vöruúrvali og bæta þjónustuna innan sveitarfélagsins,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar og Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornafjarðar, segir að það sé mikið gleðiefni að fá Krónuna inn í samfélagið á Höfn.

„Ný verslun eykur fjölbreytni og tryggir samkeppni á matvörumarkaði, sem skiptir miklu fyrir íbúa og gesti. Verslunin rís við íbúðabyggðina þar sem ekið er inn í bæinn og verður norðan við nýtt og glæsilegt 200 íbúða hverfi sem tekur á sig mynd á næstu árum. Þetta er til marks um mikla uppbyggingu um allan Hornafjörð, bæði í dreifbýlinu og í þéttbýlinu hér á Höfn – og þann mikla kraft sem samfélagið býr yfir,“ segir Sigurjón.

Í versluninni verður lögð áhersla á ferskleika og góða upplifun fyrir viðskiptavini. Jafnframt verður í boði að skanna og skunda í Krónuappinu fyrir viðskiptavini sem vilja spara sér sporin og hafa betri yfirsýn yfir innkaupin. Auk hefðbundinnar þjónustu verður einnig boðið upp á lausnir fyrir fyrirtæki en slík þjónusta hefur vaxið hratt á síðustu misserum og er í mikilli sókn hjá Krónunni.

Tölvugerð mynd af versluninni.

Krónan leggur jafnframt mikið upp úr sjálfbærni og umhverfisvænum lausnum. Í nýju versluninni verður meðal annars orkusparandi LED lýsing, lokaðir kælar og frystar knúnir umhverfisvænu kerfi, og grænar innkaupakerrur úr endurunnu plasti sem safnað hefur verið úr sjónum.

Fyrri greinEldri borgarar tóku fyrstu skóflustungu að næsta áfanga miðbæjarins
Næsta greinGrenitréð í Jórukletti er tré ársins