Krónan má opna á Hellu

Hella. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Í frétt í Viðskiptablaðinu í gær var fjallað um dagvöruverslun á Hellu og rætt við sveitarstjóra Rangárþings ytra, Jón G. Valgeirsson.

Í fréttinni kom fram að fyrirtækið Festi, sem rekur verslanir undir merkjum Krónunnar, geti ekki opnað verslun á Hellu á meðan í gildi er sátt Festi við Samkeppniseftirlitið vegna samruna N1 og Festi á árinu 2018.

Samkeppniseftirlitið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að þetta séu rangar fullyrðingar.

Við rannsókn á samruna N1 og Festi árið 2018 kom í ljós að samruninn myndi raska samkeppni í sölu dagvöru á svæði í kringum Hellu og Hvolsvöll, þar sem nánast öll dagvörusala á svæðinu yrði í höndum Festi í kjölfar samrunans. Til að bregðast við þessari stöðu lagði Festi til sölu á verslun Kjarvals á Hellu. Fram kom í málinu að húsnæði Festi á Hellu hentaði illa fyrir stærri dagvöruverslun og lágvöruverðverslun var því ekki til staðar á Hellu á þeim tíma.

Samkeppniseftirlitið féllst á þessa tillögu Festi. Í söluskilyrðum var gerð krafa um að kaupandi myndi reka sambærilega verslun og Kjarval í verslunarhúsnæðinu. Á grundvelli þess keypti Samkaup reksturinn og var hin nýja verslun, Kjörbúðin, talin sambærileg þeirri sem fyrir var.

Festi og öðrum frjálst að opna verslanir á Hellu
„Rétt er að undirstrika að ekkert í sáttinni kemur í veg fyrir að Festi, eða aðrir dagvörusalar, opni lágvöruverðsverslun á Hellu. Samkvæmt sáttinni skuldbatt Festi sig einvörðungu til þess að kaupa ekki eða leigja sama húsnæði í 10 ár frá sölu á verslun Kjarvals. Sáttin takmarkar því ekki möguleika Festi á opnun lágvöruverðsverslunar í öðru hentugu húsnæði á svæðinu,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

Fyrri greinStórkostlegur hestakostur á Íslandsmótinu á Selfossi
Næsta greinFjör í Keflavík en engin stig í pokann