Krókur á móti bragði hjá meirihlutanum

Á síðasta fundi hreppsnefndar Hrunamannahrepps var tekið fyrir bréf frá fulltrúum minnihlutans, Esther Guðjónsdóttur á Sólheimum og Gunnari Þór Jóhannessyni á Flúðum, en þau telja að gríðarlegt rusl sé á Flúðum.

Í bréfi sínu segja Esther og Gunnar Þór að ruslið valdi óprýði og sé verulegt umhverfislýti og mælast þau til að 9. bekkur Flúðaskóla verði fengin til að taka til í fjáröflunarskyni.

Meirihluti hreppsnefndar gat alls ekki tekið undir þessa skoðun minnihlutans og telur umhverfið á Flúðum almennt vera til prýði. Hreppsnefnd samþykkti þó að skoða þann möguleika að flýta rusladeginum í samráði við umhverfisnefnd og ruslamálaráðherra ársins 2013 sem skipaður var á sama fundi en það er enginn annar en umræddur Gunnar Þór.

Gunnar hafði boðað forföll á fundinn en á Facebooksíðu sinni slær hann á létta strengi og segist hafa verið verðlaunaður með ráðherratign fyrir að skreppa í burtu í nokkra daga.

„Mér var nær að benda sveitarstjórn á að þörf væri á tiltekt á Flúðum,“ segir Gunnar en bætir svo við að hann sé mjög sáttur við titilinn. „Þetta er að sjálfsögðu mikill heiður og nú þarf að reyna að standa undir nafnbótinni.“