Um klukkan hálf ellefu í morgun hófst nokkuð kröftug jarðskjálftahrina í Mýrdalsjökli. Nokkrir skjálftar hafa mælst yfir 3 að stærð og sá stærsti, af stærðinni 4,4 er sá öflugasti á svæðinu frá því í maí 2023.
Svipaðar hrinur urðu á sama stað í Mýrdalsjökli í maí og júní 2023. Báðar þær hrinur stóðu yfir í nokkrar klukkustundir og höfðu fjarað að mestu leyti út innan sólarhrings. Nú virðist hrinan þróast á svipaðan hátt og hefur dregið úr virkni síðustu klukkustundirnar þótt áfram mælist stöku smáskjálftar. Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að ekki sé hægt að útiloka að hrinan taki sig upp aftur með skjálftum af svipaðri stærð og hafa mælst hingað til.
Engar tilkynningar hafa borist um að stærstu skjálftarnir hafi fundist í byggð, þótt ekki sé útilokað að fólk á svæðinu hafi orðið þeirra vart. Engin merki sjást um breytingar á leiðni í ám frá Mýrdalsjökli sem gætu bent til yfirvofandi jökulhlaups. Veðurstofan bendir á að stærri jarðskjálftar geta aukið líkur á berg- og íshruni.


