Kristófer sagði upp störfum

Kristófer Tómasson.

Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sagði upp störfum á fundi sveitarstjórnar í gær.

Ársreikningur ársins 2020 var lagður fram á fundinum í gær og annað árið í röð er tap á rekstri sveitarfélagsins. Kristófer segir að ábendingar hans um breytingar í rekstri hafi ekki náð fram að ganga og eftir tveggja ára hallarekstur segi hann því upp störfum.

„Eins og gerist, þá er eðlilegt að upp komi þær aðstæður að fólk sem starfar saman að rekstri verði ósammála um leiðir og áherslur. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að sýn sveitarstjóra og þeirra sem halda um tauma sveitarstjórnar séu í takt í sínum verkefnum,“ segir Kristófer og bætir við að hann hafi um nokkurt skeið bent á að breytingar þurfi að eiga sér stað í rekstri sveitarfélagisns en þær ábendingar hafi ekki náð fram að ganga. Þar nefnir hann þörf á að leggja á leikskólagjöld, hækka gjaldskrá sorpþjónustu, hækka álagshlutfall fasteignagjalda í A flokki, hætta rekstri Skeiðalaugar, svo nokkuð sé nefnt.

„Þegar horft er til þess að rekstrarniðurstaða ársins 2020 er verulegt tap, annað árið í röð, verður ekki hjá því komist að ráðast í aðgerðir til að bæta reksturinn. Ég tek það mjög nærri mér að staðreyndin um afkomu sveitarfélagsins sé með þessum hætti. Hér er verið að sýsla með almannafé og brýnt að á því sé vel haldið. Það er að langt frá því að ég fyrri mig ábyrgð á því hvernig staðan er. Það má eflaust finna dæmi, fleiri en eitt sem ég hefði betur hagað málum með öðrum hætti en raun ber vitni. En að mínu mati hefði niðurstaðan orðið betri ef samstaða hefði verið um að fara þær leiðir sem ég hef lagt til á síðustu misserum,“ segir Kristófer ennfremur.

Kristófer óskaði eftir því að fá lausn frá störfum sem fyrst en væri þess óskað sé hann tilbúinn til þess að starfa út aprílmánuð.

Ingvar Hjálmarsson og Anna Sigríður Valdimarsdóttir lögðu fram eftirfarandi bókun þar sem þau hörmuðu þessa stöðu og lýstu yfir mikilli ánægju með samstarfið við Kristófer. Þau óskuðu eftir því að ráðningarferlinu yrði frestað til næsta fundar svo að sveitarstjórn fái smá tíma til að meðtaka stöðuna sem upp er komin. Aðrir sveitarstjórnarfulltrúar tóku undir bókunina.

Fyrri greinOddný leiðir lista Samfylkingarinnar – Viktor í 2. sæti
Næsta greinHamar deildarmeistari í sóttvarnarhléi