Kristján Valur býður sig fram

Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti biskups Íslands.

„Ég tók á síðasta ári ákvörðun um að vera í kjöri til vígslubiskups og þegar maður gerir það er maður þar með tilbúinn til að axla ábyrgð í kirkjunni. Síðan gerist það stuttu síðar að biskup ákveður að hætta og þá koma þessar spurningar um hvort ég muni ekki vera tilbúinn til að halda áfram. Niðurstaða mín er sú að gera það,“ sagði Kristján Valur í samtali við mbl.is.

Kristján Valur er fæddur á Grenivík við Eyjafjörð 28. október 1947. Hann var prestur á Raufarhöfn, Ísafirði og Grenjaðarstað, rektor í Skálholti, lektor við guðfræðideild HI og verkefnisstjóri á Biskupsstofu frá 2000. Hann var kjörinn vígslubiskup í Skálholti á síðasta ári.