Kristján Bjarndal lætur af störfum

Kristján Bjarndal Jónsson lét af störfum hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í gær, þann 31. ágúst. Þá hafði hann starfað í 43 ár sem ráðunautur.

Kristján starfaði hjá Búnaðarsambandi Suðurlands í nærri 40 ár eða til ársins 2013 og síðan hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Kristján hefur einkum starfað við jarðræktarleiðbeiningar og þær eru ófáar ræktunarspildurnar sem eru hannaðar eftir hans forskrift.

Kristján sá um forfalla og afleysingaþjónustu fyrir bændur sem starfrækt var um árabil. Hann hafði umsjón með kúaskýrslum í Árnessýslu og vann við yfirlestur og leiðréttingar á forðagæsluskýrslum svo fátt eitt sé nefnt.

Í frétt á heimasíðu Búnaðarsambandsins er Kristján sagður hafa sinnt störfum sínum með mikilli elju, vandvirkni og nákvæmni.