Kristín skipuð sýslumaður

Kristín Þórðardóttir.

Dómsmálaráðherra hefur skipað Kristínu Þórðardóttur til embættis sýslumanns á Suðurlandi frá 1. ágúst næstkomandi.

Alls bárust átta umsóknir um embættið sem auglýst var í vor. Anna Birna Þráinsdóttir lætur nú af störfum sem sýslumaður en hún hefur verið í ársleyfi undanfarið ár til þess að sinna rekstri ferðaþjónustu sinnar undir Eyjafjöllunum. Kristín var settur sýslumaður frá 1. maí í fyrra, þegar Anna Birna fór í leyfið.

Kristín er fædd hinn 6. september 1979. Hún lauk lögfræðiprófi frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2006.

Kristín starfaði eftir útskrift sem fulltrúi og staðgengill sýslumanns og lögreglustjóra á Hvolsvelli en frá árinu 2015 hefur hún gegnt því starfi á sameinuðu embætti sýslumanns á Suðurlandi.

Sambýlismaður Kristínar er Friðrik Erlingsson og eiga þau þrjú börn.

Fyrri greinDean Martin tekur við Selfoss
Næsta greinÁrborg mætti Ísbirni í ham