Stjórn Listasafns Árnesinga hefur ráðið Kristínu Scheving, myndlistarmann, í starf forstöðumanns safnsins.
Kristín nam myndlist við École Superiéure des Arts Décoratifs de Strasbourg í Frakklandi frá 1996-1999 og kláraði síðan BA gráðu í sjónlistum frá Manchester Metropolitan University, Bretlandi 2001.
Árið 2003 útskrifaðist hún með MA gráðu í Media Arts frá sama háskóla, og kenndi síðan við þann háskóla í sjónlistadeildinni til 2005. Eftir rúman áratug erlendis flutti Kristín aftur til Íslands og vann sem framkvæmdarstjóri Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs frá 2005 og byrjaði þá einnig með vídeólistahátíðina 700IS Hreindýraland. Árin 2011-2013 vann hún sem verkefnastjóri hjá Listahátið í Reykjavík og Norræna húsinu í Reykjavík.
Árin 2013-2017 var Kristín deildarstjóri Vasulka-stofu hjá Listasafni Íslands og síðustu tvö ár hefur hún unnið sem sérfræðingur hjá BERG Contemporary og séð um að halda utan um sýningar Vasulka verka, um útgáfur og lagaleg mál vegna höfundarréttar verka þeirra. Einnig aðstoð við umsjón gagnasafns þeirra hjóna, sýningarstjórnun innanlands sem utan.
Alls voru átján umsækjendur um starfið og hafði Hagvangur umsjón með ráðningarferlinu. Kristín mun hefja störf 1. febrúar nk. Hún tekur við starfinu af Ingu Jónsdóttir sem lætur nú af störfum eftir rúmlega tólf ár sem safnstjóri.