Kristín Ósk ráðin leikskólastjóri

Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri og Kristín Ósk Ómarsdóttir handsala ráðninguna. Ljósmynd/RY

Kristín Ósk Ómarsdóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri Leikskólans á Laugalandi. Starfið var auglýst fyrr í vor í kjölfar þess að Sigrún Björk Benediktsdóttir sagði starfi sínu lausu eftir langan og farsælan feril en hún lætur af störfum vegna aldurs.

Kristín þekkir vel til á leikskólanum en hún hefur starfað þar með hléum frá árinu 2017 og starfar þar í dag sem deildarstjóri, staðgengill leikskólastjóra og staðgengill umsjónarmanns sérkennslu. Hún mun taka við stöðu leikskólastjóra 5. ágúst næstkomandi.

Kristín hlaut B.A. gráðu í félagsráðgjöf árið 2005, M.A. gráðu í félagsráðgjöf árið 2016 og M.ed. gráðu í menntunarfræði leikskóla árið 2020. Auk þess hefur hún lokið bókhalds- og rekstrarnámi, lokið 30 ECTS í lýðheilsu- og kennslufræðum og viðbótardiplóma í farsæld barna.

Enn fremur hefur Kristín lokið fjölda námskeiða sem snúa að leikskólakennslu, þ.á m. námskeiði í jákvæðum aga, TRAS-málþroskaskráningu, atferlisíhlutun fyrir börn með þroskafrávik, HLJÓM-2 auk fjölda annarra.

Kristín Ósk býr á Sjónarhóli í Ásahreppi ásamt fjölskyldu sinni.

Fyrri grein„Það er ótrúlega gaman að vera VÆB kærasta“
Næsta greinFjögur verkefni hlutu styrk úr menningarsjóði