Kristín Hanna fékk iPad mini

Um 1.500 grunnskólakrakkar úr 130 skólum spreyttu sig á Fjármálahreysti, spurningaleik sem ætlað er m.a. að efla fjármálalæsi ungmenna.

Leikurinn er öllum opinn á www.fjarmalahreysti.is og auk nemendanna tóku meira en eitt þúsund einstaklingar þátt í leiknum.

Í leiknum er þátttakendum ætlað að leysa 64 verkefni og nota til þess sem fæstar tilraunir. Verkefnin eru á fjórum ólíkum efnissviðum og eru sett fram á jafnmörgum þyngdarstigum. Flokkunin tekur mið af markmiðum OECD í fjármálafræðslu.

Sextán nemendur fengu fullt hús í Fjármálahreysti eða 8.000 stig. Úr þeirra hópi voru nöfn þriggja nemenda dregin út, sem hlutu aðalverðlaun leiksins. Ein þeirra var Kristín Hanna Jóhannesdóttir í 9. bekk Vallaskóla á Selfossi og fékk hún iPad mini í verðlaun.