Kristbjörg ráðin forstöðumaður íþróttamannvirkja

Kristbjörg Guðmundsdóttir á Laugarvatni hefur verið ráðin forstöðumaður íþróttamannvirkja Bláskógabyggðar.

Í haust samþykkti sveitarstjórn Bláskógabyggðar að leggja niður stöður beggja forstöðumanna íþróttamiðstöðva Bláskógabyggðar og koma þess í stað á stöðu forstöðumanns íþróttamannvirkja. Undir hina nýju stöðu heyra rekstur Íþróttamiðstöðvarinnar í Reykholti og Íþróttamiðstöðvarinnar á Laugarvatni, auk umsjónar með íþróttavöllum á Laugarvatni og í Reykholti.

Forstöðumönnum beggja íþróttamiðstöðvanna var boðið að taka þátt í matsferli vegna ráðningar í hið nýja starf. Niðurstaða þess var að Kristbjörg var ráðin í starfið frá 1. janúar síðastliðnum.

Kristbjörg er með BSc gráðu í sálfræði og hefur starfað sem forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar á Laugarvatni frá því í ársbyrjun 2019, þar sem hún starfaði áður sem sundlaugarvörður.

Fyrri grein„Þetta er minn stærsti draumur“
Næsta greinHeimamenn buðu lægst í Þingskálaveg