Krem við skordýrabiti seldist upp í Hveragerði

Kláðastillandi krem seldist upp í apótekinu í Hveragerði á nokkrum klukkustundum á föstudag og skordýrafælur kláruðust líka.

Umræða um skordýrabit skapaðist í Facebook-hópi Hvergerðinga í liðinni viku. Þar var meðal annars tekið dæmi um barn sem vaknaði útbitið og útlits eins og það væri komið með hlaupabólu. Fleiri kvörtuðu undan biti og birtu myndir bæði af bitum og flugum.

RÚV greinir frá þessu.

„Skordýrafælur og það sem er notað á flugna- og mýbit seldist upp fyrir helgi,“ segir Þorgils Baldursson, lyfjafræðingur og lyfsöluhafi Apótekarans í Hveragerði í samtali við RÚV. Fólk verði yfirleitt ekki vart við bitið strax, ekki fyrr en fer að bera á kláða og óþægindum.

Erling Ólafsson skordýrafræðingur hafði ekki heyrt af auknu skordýrabiti á Suðurlandi þegar fréttastofa RÚV náði tali af honum síðdegis. Veðurfarið að undanförnu hafi góð áhrif á allt lífríki; vætutíð og sól á milli. „Veðuraðstæðurnar að undanförnu hafa verið góðar fyrir alla nema þá sem þola ekki bit,“ segir Erling.

Frétt RÚV

Fyrri greinBarbára Sól með landsliðinu á NM
Næsta greinHrunamenn steinlágu á heimavelli