Krefur ráðherra um svör varðandi Grynnslin

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir svari frá innanríkisráðherra um áframhaldandi rannsóknir á Grynnslunum utan við Hornafjarðarós.

Grynnslin er sandrif sem er helsti farartálmi skipa á leið til Hafnar og segir Silja Dögg að nú stefni í að innsiglingin muni standa atvinnulífinu fyrir þrifum ef rannsóknir halda ekki áfram í vor. Í framhaldinu yrði svo ráðist í nauðsynlegar aðgerðir til að bæta innsiglinguna.

„Hver er staða rannsókna á Grynnslunum fyrir utan Hornafjarðarós?“, spyr Silja Dögg og „hefur ráðherra tryggt að rannsóknir haldi áfram í sumar og þá hvernig?

„Ef ekki, til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa til að tryggja þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru fyrir framkvæmdir til að gera innsiglinguna í Hornafjarðarhöfn greiða og örugga?“ Og að lokum spyr Silja Dögg: „Ef rannsóknir halda áfram í sumar, hvenær má þá búast við að framkvæmdir geti hafist á grundvelli þeirra?“

„Fiskiskipin reka iðulega botninn í Grynnslin vegna lítils dýpis þar. Miklum verðmætum er landað á Höfn en samkvæmt vef Hagstofunnar þá voru 80.909 tonn veidd af hornfirskum skipum árið 2013 sem skiluðu þjóðarbúinu 5,5 milljörðum króna,“ segir Silja Dögg en á Hornafirði er rekin saltfiskvinnsla allt árið um kring, humarvinnsla ásamt vinnslu á loðnu, síld og makríl.

„Það er því lykilatriði að mínu mati að rannsóknir á Grynnslunum verði efldar enn frekar og með það að leiðarljósi að ráðast í markvissar aðgerðir til að tryggja viðgang sjávarútvegs á Hornafirði og treysta atvinnulíf staðarins,“ segir hún.

Einnig bendir Silja Dögg að öryggi sjómanna kunni jafnvel að vera í hættu vegna ástandsins við ósinn.

„Öryggi sjómanna er heldur ekki eins og best verður á kosið vegna ástandsins þegar dýpi er takmarkað í innsiglingu þar sem sterkir straumar eru fyrir. Þá er líka mikilvægt að hafa í huga að landris er hvað mest á Hornafirði sem getur aukið enn á þessi vandræði. Ég legg því áherslu á að rannsóknir haldi áfram í vor svo hægt sé að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir,” segir Silja Dögg að lokum.

Fyrri greinDramatískt jafntefli á Selfossi
Næsta greinSjötíu minkar veiddir á síðasta ári í Árborg