Krefjast þess að staðið sé við samning

Landgræðslan hefur sent Skeiða- og Gnúpverjahreppi bréf þar sem þess er krafist að staðið verði við samning frá 1999 um að hreppurinn haldi við girðingu og kosti lögbundnar smalanir á landgræðslusvæði á Hafinu á Gnúpverjaafrétti.

Forsaga málsins er sú að sveitarfélagið og Landsvirkjun létu rífa niður girðinu á Hafinu árið 2009 en girðingin var í eigu Landgræðslu ríkisins.

Sveitarfélagið reisti því nýja girðingu í vor að kröfu Landgræðslunnar en í umræðum sem urðu í kjölfarið á fundi sveitarstjórnar komu fram vonbrigði Gunnars Arnar Marteinssonar, oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, með að Landgræðslan krefði sveitarfélagið um að reisa girðinguna. Bæði væri önnur girðing nærri og svæðið vel gróið.

Bæði Gunnar og Landgræðslan telja að þessu máli sé nú lokið en eftir á að ganga frá lokauppgjöri vegna kostnaðar við girðingarvinnuna að sögn Gunnars.

Sátt er hins vegar um það við Landsvirkjun að þeim kostnaði verði deilt á millisveitarfélagsins og stofnunarinnar.