Krakkaborg flutt í Flóaskóla

Í gær opnaði leikskóli Flóahrepps á ný í Flóaskóla. Myglusveppur greindist í húsnæði leikskólans á Þingborg á dögunum og flutti hann þá tímabundið í Félagslund.

Undirbúningur fyrir flutningana gekk vel og í vikunni tóku Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Brunavarnir Árnessýslu aðstöðuna út og gáfu grænt ljós á opnun leikskólans.

Á útisvæði leikskólans er kominn stór og mikill sandkassi og einnig var öryggismöl sett á útisvæðið. Útileikföngin og hjólin eru komin á nýjan stað og börnin strax farin að leika sér úti við.

Til stendur að girða af lóðina þar sem yngstu börnin eru en þar til því er lokið munu börnin nota sama útisvæði og eldri leikskólabörnin.

Fyrri greinHeimaleikir hjá báðum liðum FSu um helgina
Næsta greinÁsa Berglind: Vel heppnað landsmót í Þorlákshöfn