Krafist eignarnáms á landareign Útlagans

Hreppsnefnd Hrunamannahrepps hefur ákveðið að taka land eignarnámi við veitingahúsið Útlagann á Flúðum, undir veg að Bakkatúni.

„Þetta er um 23 ára gamalt mál sem við erfðum frá Vegagerðinni,“ segir Jón Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps. „Sveitarfélagið þarfnast hentugra tenginga inn á Flúðir og málið hefur verið í kærumeðferð í nokkuð langan tíma en því lauk í fyrra með úrskurði kærunefndar skipulags- og byggingarmála.

Árni Hjaltason, eigandi Útlagans, hefur nú höfðað mál á hendur sveitarfélaginu vegna staðfestingar eignarnámsins og til vara uppkaupsskyldu.

Á sama tíma hefur Útlaginn sótt um endurnýjun rekstrarleyfis en hreppsnefndin leggur til þess að rekstrarleyfið verði einungis til eins árs frá útgáfu þess. Hreppsnefnd bókar að ástæður þess að rekstrarleyfið verði einungis veitt til eins árs séu þær að veitingastaðurinn sé staðsettur á skipulögðu íbúðarsvæði og með stöðuleyfi að hluta. Þá sé líka vissara að bíða eftir niðurstöðu dómsmálsins.

Fyrri greinLíklegt að vinna verði skorin niður í vetur
Næsta greinLýst eftir stúlku