Krabbameinslæknir hefur störf á HSU

Sigurður Böðvarsson. Ljósmynd/HSU

Sigurður Böðvarsson, sérfræðingur í krabbameinslækningum, hefur verið ráðinn yfirlæknir göngudeildar á sjúkrahússviði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hann hóf störf þann 1. desember síðastliðinn.

Sigurður er nú nýfluttur til landsins eftir að hafa starfað í Bandaríkjunum undanfarin átta ár.  Þar starfaði hann sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Gundersen Health System í La Crosse í Wisconsin-fylki og nú síðast við Green Bay Oncology í Green Bay í Wisconsin-fylki. Áður starfaði Sigurður um níu ára skeið sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Landspítala.

Hann hefur áralanga reynslu af meðferð krabbameinssjúklinga, rannsóknum, kennslu og stjórnun, var um tíma formaður Læknafélags Reykjavíkur og sat í stjórn Læknafélags Íslands. Hann lauk meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst árið 2009.

Að sögn Herdísar Gunnarsdóttur, forstjóra HSU, er mikill fengur fyrir stofnunina að fá Sigurð til starfa. Sjúklingum sem þurfa lyfjameðferð vegna krabbameins- og blóðsjúkdóma, er boðið í samvinnu við Landspítala að þiggja þjónustu á HSU, eins og kostur er. Sigurður mun einnig veita öðrum langveikum sjúklingum meðferð, ráðgjöf og þjónustu.

Fyrri greinKristján blakmaður ársins 2018
Næsta greinSunnlendingar búa sig undir útflutning á sorpi