Kr verður að Krónunni

Verslun Krónunnar í Þorlákshöfn.

Krónan hefur ákveðið að breyta Kr-verslunum sínum í Þorlákshöfn og Vík í Mýrdal í Krónuverslanir. Þetta felur í sér verðbreytingar á ákveðnum vöruflokkum frá og með deginum í dag.

Á nýju ári mun merkingum í verslun einnig verða breytt ásamt því að sjálfsafgreiðslulausnin Skannað og skundað verður innleidd. Þessi breyting er liður í vegferð Krónunnar að styrkja sig í sessi utan höfuðborgarsvæðisins og að koma réttu vöruúrvali í hendur viðskiptavina á eins ódýran hátt og mögulegt er.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir það mikilvægt fyrir Krónuna að geta rekið sínar verslanir undir einu vörumerki.

„Okkar loforð er að koma réttu vöruúrvali á sem ódýrastan hátt til viðskiptavina. Við viljum einnig að viðskiptavinir okkar upplifi Krónuandann óháð staðsetningu.“ Þá segir hún ákvörðunina líka flýta fyrir snjöllum lausnum á þessum stöðum. „Við erum spennt að sjá hvernig verður tekið í Skannað og skundað sem er nýja sjálfsafgreiðslulausnin okkar. Með henni er hægt að spara heilmikinn tíma við innkaupin og einfalda lífið á ýmsan máta,“ segir Guðrún.

Ingólfur Árnason, verslunarstjóri í Þorlákshöfn, segir fólk spennt fyrir breytingunni. „Við reiknum með að heimamenn sæki meira til okkar en birgi sig ekki upp í borginni eða nágrannabæjum, sem er ekki aðeins hagkvæmt fyrir viðskiptavini heldur einnig umhverfisvænna. Við búumst því við söluaukningu í versluninni og hlökkum til að sjá breytinguna ganga í gegn,“ segir Ingólfur.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Verslun Krónunnar í Vík.
Fyrri greinJólatónleikar í Skálholtsdómkirkju
Næsta grein„Fjármál mega alveg vera skemmtileg“