Kötlugos hugsanlega hafið

„Það er vel hugsanlegt að lítið gos sé hafið í Kötlu,“ segir Sigurlaug Hjaltadóttir á Veðurstofu Íslands. Hún segist draga þessa ályktun út frá sjálfvirkum óróamælum sem gefi til kynna að gosórói sé í gangi.

Sigurlaug segir þetta í samtali við mbl.is.

Hlaup er hafið í Múlakvísl. Búið er að loka þjóðvegi eitt við brúna yfir Múlakvísl, en vegurinn hefur rofnað þar, rétt austan við Höfðabrekku. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið virkjuð. Verið er að meta ástandið. Flogið verður yfir Mýrdalsjökul, Kötlu, Múlakvísl og Mýrdalssand nú á sjöunda tímanum. Verið er að efla viðbúnað fyrir austan og lögreglan í umdæminu er við brúna.