Kótelettan tvöfaldar afrakstur af styrktarlettum

(F.v.) Hafþór Úlfarsson, deildarstjóri markaðsdeildar SS, Einar Björnsson, Gréta Ingþórsdóttir og Sigurður Sigurðsson, sölumaður hjá Kjarnafæði. Ljósmynd/Mummi Lú

Sumarið 2022 voru í sjöunda sinn seldar kótelettur til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna (SKB) á BBQ-hátíðinni Kótelettunni á Selfossi. Afrakstur af styrktarlettusölunni er orðinn um fjórar milljónir króna.

Í sumar voru seldar kótelettur fyrir rúma hálfa milljón króna og í lok október afhenti Einar Björnsson, skipuleggjandi og forsvarsmaður Kótelettunnar, SKB sömu upphæð og sagði við það tækifæri að hátíðin myndi framvegis tvöfalda þá upphæð sem kæmi út úr styrktarlettusölunni.

Viðstaddir afhendinguna voru fulltrúar SS og Kjarnafæðis en fyrirtækin hafa síðustu ár lagt til kóteletturnar ásamt Mömmumat á Selfossi. Einnig hefur Matborðið gefið SKB kartöflusalat sem selt hefur verið með kótelettunum.

„Hátíðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af skemmtilegri fjáröflunarviðburðum félagsins á hverju ári. Þar gefst tækifæri til að hitta fjölda fólks, auk þess sem afraksturinn kemur að góðum notum í starfi félagsins og fyrir hann er forsvars- og félagsfólk þess afar þakklátt. Það að Einar Björnsson hafi ákveðið að leggja félaginu síðan annað eins til hefði komið skemmtilega á óvart og yrði vonandi öðrum hvatning til að láta gott af sér leiða,“ sagði Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB, við afhendinguna.

Fyrri greinGuðlaugur fundar á Selfossi í kvöld
Næsta greinLionskúbbur Selfoss og Emblurnar gefa til HSU