Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan fór fram um helgina á Selfossi í einmuna veðurblíðu. Hátíðin náði hámarki í gær laugardag. Mikill fjöldi sótti grillhátíðina í Sigtúnsgarði fjölbreytta dagskrá.
„Þetta er fimmtán ára afmæli og vélin sem þessi hátíð er gengur alltaf betur og betur með hverju árinu,“ segir Einar Björnsson, stofnandi og skipuleggjandi hátíðarinnar. „Þetta gerist ekki af sjálfu sér og við fjölskyldan erum öllum afar þakklát. Net þeirra sem koma að því að gæta öryggis og velferða gestanna okkar, gleði þeirra og þörfum er ansi umfangsmikið þegar allt er upp talið og þakklætið er mikið þegar hlutirnir ganga svona vel.“
Í gærkvöldi fóru fram lokatónleikar hátíðarinnar á Eimskips-sviðinu við Hvítahúsið, langt fram á nótt, og tókst afar vel til. Meðal gesta voru stórstjörnur á borð við Björgvin Halldórsson, Friðrik Dór, Daníel Ágúst og Aron Can. Svala Björgvins var leynigestur og einnig Jakob Frímann Magnússon, sem steig á stokk með Stuðlabandinu og söng nokkur vel valin Stuðmannalög.
Ljósmyndari hátíðarinnar, Mummi Lú, fór á kostum við að fanga þennan magnaða hóp listamanna á sviðinu, og hér fyrir neðan eru nokkrar vel valdar myndir frá honum frá því í gær.


