Kostnaður við endurbætur um 100 milljónir króna

Frá ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Ljósmynd/UMFÍ

Áætlað er að nauðsynlegar endurbætur og viðhald á íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni kosti um 100 milljónir króna. Húsnæðinu var lokað á dögunum vegna myglu og rakaskemmda og í kjölfarið hefur UMFÍ ákveðið að hætta rekstri ungmennabúðanna á Laugarvatni.

Málið var rætt á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar í gær þar sem fram kom að samkvæmt mati byggingafræðings hjá Hönnun og eftirliti ehf sé kostnaður vegna nauðsynlegra viðgerða tæpar 63 milljónir króna. Til þess að koma megi eigninni í almennt og gott ástand með endurbótum og viðhaldi megi áætla kostnað að 100 milljónum króna.

Bláskógabyggð hefur þegar varið ríflega 60 milljónum króna til viðhalds og endurbóta á fasteigninni frá því að sveitarfélagið hóf endurbætur á húsinu árið 2018.

Sveitarfélagið átti í viðræðum við Ungmennafélag Íslands að kaupa húsnæðið af Bláskógabyggð en stjórn UMFÍ taldi ekki skynsamlegt að takast á hendur slíka skuldbindingu.

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að ákveðið hafi verið að fresta ákvörðun um hvort húsið yrði selt eða hvað verði gert við það. Málið verði væntanlega tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar í apríl eða maí.

Sveitarstjórn samþykkti í gær tillögu Jóns F. Snæbjörnssonar, fulltrúa Þ-lista, að halda íbúafund á Laugarvatni varðandi framtíð Ungmennabúða UMFÍ og önnur mál sem snerta Laugarvatn. Sveitarstjórn mun leita eftir því að UMFÍ eigi fulltrúa á fundinum.

Fyrri greinSjálfbær rekstur í Árborg
Næsta greinGul viðvörun: Austan stormur og snjókoma