Kostnaður við vetrarþjónustu vel undir áætlun

Kostnaður við vetrarþjónustu í sveitarfélaginu Árborg þennan veturinn er aðeins um 4 milljónir króna sem er margfalt minna en síðustu tvo vetur.

Innifalið í þessari tölu er vinna þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins og verktaka en þeir verkþættir sem eru innfaldir í vetrarþjónustu eru m.a. snjómokstur, söndun og söltun.

Fyrir veturinn gerði sveitarfélagið samninga við verktaka um snjómokstur í tilteknum hverfum og þykir það fyrirkomulag hafa heppnast vel og reynslan af því góð. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, sagði í samtali við sunnlenska.is að líklegt væri að sambærilegt fyrirkomulag verði haft á mokstrinum næsta vetur.

Á þessu ári er gert ráð fyrir 15 milljónum í vetrarþjónustu. Kostnaðurinn árið 2012 nam 25,5 milljónum og árið 2011 fóru 20 milljónir í þessa þjónustu.

„Það eru ekki margir dagar sem vinna hefur þurft að snjómokstri í vetur, en þeir eru fleiri dagarnir sem hefur þurft að sinna hálkueyðingu, söndun og söltun,“ sagði Ásta.

Fyrri greinGuðmundur sigraði í Meistaradeildinni
Næsta greinFróðleg og skemmtileg ungmennaráðstefna