Kosta lýsingu í kringum skóla

Félagar í Kiwanisklúbbnum Ölveri í Þorlákshöfn hyggjast gefa sveitarfélaginu ljóskastara til að bæta lýsingu á gangbrautum í Þorkákshöfn, með öryggi skólabarna að leiðarljósi.

Er klúbburinn tilbúinn að leggja til kastara til verkefnisins en hefur óskað eftir því að sveitarfélagið sjái um uppsetningu og rekstur. Um er að ræða fjórar gangbrautir í nágrenni grunnskólans, þrjár yfir Egilsbraut og ein yfir Hafnarberg.

Að sögn Gísla Eiríkssonar, formanns Ölvers, hafa bæjaryfirvöld tekið vel í erindið og hann á von á að kastararnir verði komnir upp fyrir haustið.

„Við sjáum hversu miklu munaði um góða lýsingu þegar framkvæmdir við leikskólann stóðu yfir og ljóskösturum var beint að athafnasvæðinu. Í framhaldi af því fórum við að kanna þennan möguleika,“ segir Gísli.

Hann segir félagana í klúbbnum hafa styrkt fjölmörg verkefni í vetur og það sé verkefni þeirra að láta gott af sér leiða.

„Við teljum að með þessari auknu lýsingu verði umhverfið í kringum skólana öruggara,“ segir Gísli.

Fyrri greinAlveg að verða uppselt í frjálsíþróttaskólann
Næsta greinSprautunálar fundust á víðavangi