Kosning vígslubiskups ógilt

Kosning til vígslubiskups í Skálholti sem fram fór fyrr í mánuðinum hefur verið ógilt. Kosningin verður að öllum líkindum endurtekin frá upphafi.

„Það voru þarna tvö atkvæði sem komu of seint sem okkur í kjörstjórninni fannst að væri rétt að taka með af ákveðnum ástæðum, en yfirkjörstjórnin sem sagt kemst að þeirri niðurstöðu að þar sem frestur hafi verið runninn út hafi ekki átt að taka þau með,“ segir Anna Guðrún Björnsdóttir í samtali við Morgunblaðið.

Það var sr. Agnes M. Sigurðardóttir sem kærði kosninguna, en eftir fyrri umferð kosninganna munaði einu atkvæði á milli hennar og Jóns Dalbú Hróbjartssonar.

Anna Guðrún segir að kjörstjórn muni að líkindum funda í dag og ræða framhaldið, en búast megi við því að kosningin verði endurtekin.

Fyrri greinEftirspurn eftir innlendu hjallaefni
Næsta greinTekið til í Árborg