Kosið um nafnabreytingu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Árnes.

Samhliða forsetakosningunum munu Skeiðamenn og Gnúpverjar kjósa um hvort breyta eigi nafni Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Í íbúakosningunni verða íbúar spurðir að því hvort skipta eigi um nafn eða ekki. Ef meirihluti verður fyrir því að velja nýtt nafn verður hafin nafnasamkeppni með það að markmiði að kjósa um nýtt nafn á sveitarfélaginu samhliða næstu alþingiskosningum.

Ekki einhugur í sveitarstjórn
Þetta var samþykkt á fundi sveitarstjórnar í apríl síðastliðnum en ekki var einhugur um kosninguna í sveitarstjórn og var hún samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa L-listans en fulltrúar E- og U-listans voru á móti.

Þegar málið kom fyrst upp í vetur lét Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri, hafa eftir sér að  mikilvægt sé að breyta nafni sveitarfélagsins, þar sem nýtt nafn beri sterkari tengingu til staðsetningar á Íslandi, sé þjálla í notkun og gegni mikilvægu hlutverki í því að skapa ímynd sveitarfélagsins til framtíðar.

Síðast kosið um nafn árið 2016
Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur sameinuðust vorið 2002 og fékk nýstofnaður hreppur nafnið Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Síðast var kosið um nafn á sveitarfélagið í janúar 2016 og þá fékk nafnið Skeiða- og Gnúpverjahreppur rúm 53% atkvæða en tæp 22% kusu nafnið Þjórsársveit.

Fyrri greinStjórnunar- og verndaráætlun Þjórsárdals staðfest
Næsta greinVæri til í að vera forseti Íslands