Kosið milli Sigrúnar og Kristjáns

Kosið verður milli sr. Sigrúnar Óskarsdóttur og sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar í síðari umferð í vígslubiskupskjöri í Skálholti. Niðurstöðurnar voru mjög jafnar og komst Kristján áfram eftir hlutkesti.

Kosningu til embættisins lauk fimmtudaginn 28. júlí og atkvæði voru talin í dag. Á kjörskrá eru 149 menn og greidd voru 146 atkvæði. Kjörsókn var 98%.

Atkvæði féllu þannig:
Sr. Sigrún Óskarsdóttir, 39 atkvæði
Sr. Kristján Valur Ingólfsson, 37 atkvæði
Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, 37 atkvæði
Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson, 33 atkvæði

Reglur gera ráð fyrir að kosið sé milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu í kosningu. Þar sem Agnes M. Sigurðardóttir og Kristján Valur Ingólfsson hlutu jafnmörg atkvæði réði hlutkesti því að Kristján Valur Ingólfsson tekur þátt í seinni umferð kosningarinnar ásamt Sigrúnu Óskarsdóttur.

Sr. Sigrún Óskarsdóttir er fædd árið 1965. Hún var vígð árið 1991 sem aðstoðarprestur í Laugarnesprestakalli. Hún hefur einnig þjónað sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum, framkvæmdastjóri ÆSKR, prestur í norsku kirkjunni og prestur íslenska safnaðarins í Noregi. Hún þjónar nú sem prestur í Árbæjarkirkju.

Sr. Sigrún sagði í samtali við kirkjan.is: “Ég er þakklát, glöð og auðmjúk. Ég á góða vini og fjölskyldu og sterka trú og allt þetta hefur hjálpað mér og gerir mig ennþá glaðari í dag. Ég er líka þakklát hinum frambjóðendunum fyrir góða og heiðarlega kosningabaráttu. Ég geng glöð inn í næsta áfanga. Verkefnið framundan er að taka höndum saman um að efla traust á kirkjuna og trú á erindi hennar í samfélaginu.”

Sr. Kristján Valur Ingólfsson er fæddur árið 1947. Hann var vígður árið 1974 sem sóknarprestur í Raufarhafnarprestakalli. Hann hefur einnig þjónað sem farprestur Þjóðkirkjunnar í Ísafjarðarprestakalli, sóknarprestur í Grenjaðarstaðarprestakalli og rektor Skálholtsskóla. Hann gegnir nú starfi verkefnisstjóra helgisiða og kirkjutónlistar á Biskupsstofu og þjónar sem sóknarprestur á Þingvöllum.

Sr. Kristján Valur sagði í samtali við kirkjan.is: “Þetta er ótrúlega jafnt og það er gott að það sé þannig. Þetta eru fjórir valkostir og þeir eru allir góðir og það eru skilaboðin. Af því að það geta ekki allir unnið þá verður kosið milli okkar Sigrúnar í annarri umferðinni.”

Önnur umferð kosningarinnar fer fram strax að afloknum kærufresti, þann 12. ágúst nk. Skilafrestur atkvæða rennur út 26. ágúst. Gert er ráð fyrir að talning atkvæða úr annarri umferð fari fram laugardaginn 3. september.