Kortasvik leiddu til landafundar

Lögreglan á Selfossi handtók par á föstudag í tengslum við fjársvik vegna kreditkorts.

Þarna var um sama parið að ræða og fyrr í vikunni var handtekið vegna innbrota í sumarbústaði í Grímsnesi.

Bæði viðurkenndu brotið við yfirheyrslu hjá lögreglu og var fólkið látið laust að henni lokinni. Parið hafði komist yfir kreditkortið hjá eiganda þess og tekist að taka út rúmar þrjátíu þúsund krónur í ellefu færslum áður en eigandi kortsins uppgötvaði svikin.

Húsleit var gerð hjá parinu í húsnæði sem þau höfðu komið sér fyrir í á Eyrarbakka. Þar fannst mikil sveðja sem karlmaðurinn átti og var hún haldlögð en ekki liggur fyrir til hvers brúks hún átti að vera, að því er fram kemur í dagbók Selfosslögreglunnar.

Vegna kortafjársvikanna var gerð húsleit hjá karlmanni á Eyrarbakka. Í þeirri leit rákust lögreglumenn á bruggtæki og um tíu lítra af landa sem var um 50 % að styrkleika. Hald var lagt á landann og búnaðinn.

Málið er í rannsókn sem felst í að yfirheyra manninn og fá nákvæma mælingu á magni og styrkleika landans.

Fyrri greinVerðmæti þýfisins nam milljónum króna
Næsta greinTvö innbrot í Laugardalnum