Konungskaffi opnar eftir páska

Sunna Mjöll Caird og Ísak Eldjárn Tómasson í Konungskaffi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á næstu dögum mun kaffihúsið Konungskaffi opna í Konungshúsinu í miðbæ Selfoss. „Okkur hefur fundist vanta gott kaffihús í miðbæ Selfoss og það er aðalástæðan fyrir hugmyndinni. Við heilluðumst einnig af þessu fallega og sögufræga húsi,“ segir Sunna Mjöll Caird, hjá Konungskaffi, í samtali við sunnlenska.is.

Sunna mun, ásamt Ísak Eldjárn Tómassyni, sjá um daglegan rekstur á kaffihúsinu en þau eru bæði miklir reynsluboltar úr veitingageiranum þrátt fyrir ungan aldur.

„Undirbúningurinn hefur gengið nokkuð vel en við höfum alveg lent í nokkrum hindrunum, en fall er fararheill. Þetta hefur verið skemmtilegur tími og við vinnum vel saman,“ segir Ísak.

Matseðillinn innblásinn af sögu hússins
Sunna segir að það hafi verið gaman að hanna matseðilinn fyrir kaffihúsið. „Í sjálfu sér var það skemmtileg áskorun því við vorum með sögu hússins ofarlega í huga. Við erum búin að vera að prófa okkur áfram með ýmsa rétti og hlökkum til að leyfa gestum að smakka á afrakstrinum. Á matseðlinum verður t.d. spennandi réttur sem heitir „Fermingarveisla“ eitthvað sem flestir Íslendingar kunna vel að meta.“

Húsið er endurgerð af Konungshúsinu sem var reist vorið 1907 á Þingvöllum fyrir Friðrik VIII. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sem fyrr segir er Konungskaffi staðsett í Konungshúsinu í nýja miðbænum. Húsið er endurgerð af Konungshúsinu sem var reist vorið 1907 á Þingvöllum og var ætlað Friðriki konungi VIII í sinni Íslandsheimsókn. Húsið var svo endurgert og flutt að Þingvallavatni og var bústaður Kristjáns konungs og Alexandrínu drottningar á Alþingishátíðinni 1930. Upp frá því tíðkaðist að ráðherrar dveldu í Konungshúsinu að sumarlagi en húsið varð svo eldi að bráð þann 10. júlí 1970 og fórust þar þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, Sigríður Björnsdóttir kona hans og Bjarni ungur dóttursonur þeirra í eldsvoðanum.

Að sögn Sunnu verða í kringum tíu starfsmenn á Konungskaffi í sumar, bæði í hlutastarfi og fullu starfi. „En svo á það eftir að koma í ljós hvað verður mikið að gera hjá okkur og vonandi þurfum við að bæta við fleiri starfsmönnum.“

Notaleg kaffihúsastemning
Sem fyrr segir sækja veitingarnar innblástur til sögu hússins. „Veitingarnar verða með íslensku og dönsku sniði, bæði matur og drykkir. Svo verðum við með kaffi frá Te & Kaffi, léttvín og bjór. Markmiðið er að hafa notalega kaffihúsastemningu, en það fer örugglega eftir dögum. Við erum líka spennt fyrir útisvæðinu á góðum sumardögum. Það gæti myndast skemmtileg stemning þar,“ segir Ísak.

„Við erum ótrúlega spennt að taka á móti Sunnlendingum og gestum í gott kaffi og veitingar,“ segir Sunna að lokum og bendir fólki á að fylgjast með á samfélagsmiðlum þegar staðurinn opnar.

Fyrri greinAðstaða til íþróttaiðkunar í Hveragerði
Næsta greinHvar er stuðningurinn?