Konu og tveimur börnum bjargað úr bíl í Gilsá

Um klukkan 16 í dag var Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli kölluð út þegar tilkynning barst um að kona og tvö börn sætu föst í bíl í Gilsá, sem er norðan Markarfljóts til móts við Húsadal í Þórsmörk.

Konan hugðist aka bílnum yfir vað í ánni en var ekki komin alla leið yfir þegar bíllinn stöðvaðist. Hópur björgunarsveitafólks úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík, sem staddur var í Básum, var einnig kallaður til.

Konan beið í bílnum með börnin eftir aðstoð þrátt fyrir að töluvert flæddi inn í hann. Björgunarsveitin var komin á staðinn og búin að ná fólkinu í land um 45 mínútum eftir að útkall barst. Voru allir heilir á húfi.

Slysavarnafélagið Landsbjörg minnir ferðafólk á að fara varlega þegar ár eru þveraðar. Þær eru oft vatnsmeiri seinni part dags, ekki síst þegar veður er gott og sól skín.

Fyrri greinFornbílamót í frábæru veðri
Næsta greinLífræni markaðurinn á Engi slær í gegn