Konu leitað við Mýrdalsjökul

Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli hafa hafið leit að konu við Mýrdalsjökul. Konan er á fertugsaldri, erlend en búsett á Íslandi. Hún er mjög vön ferðalögum í erfiðum aðstæðum.

Konan fór af stað á þriðjudag og hugðist fara á gönguskíðum í kringum jökulinn, þ.e. upp austan við hann, fyrir hann norðan megin og niður vestan megin og ganga þar Mælifellssand og Emstrur.

Konan er með svokallað SPOT tæki sem sendir skilaboð um staðsetningu á 12 tíma fresti. Hafði hún samið við vinkonu sína að taka á móti tölvupóstum frá tækinu og tekið fram að bærust ekki boð i þrjú skipti væri það merki um að hún þyrfti aðstoð. Síðustu boð frá henni bárust í hádeginu í gær.

Björgunarsveitirnar eru á leið upp í Emstrur á vélsleðum og snjóbíl. Munu þær skoða í skála á svæðinu og leita út frá síðustu staðsetningu sem SPOT tækið sendi.

Veðurspá fyrir svæðið er mjög slæm og t.a.m. er þegar orðið slæmt skyggni á Hvolsvelli en ekki vitað hversu langt inn á hálendið slæma veðrið nær á þessari stundu.

UPPFÆRT KL. 10:00 Konan er enn ófundin en kl. 6 í morgun var gert hlé á leitinni og verður staðan endurmetin kl. 11. Aðstæður til leitar voru erfiðar í nótt vegna veðurs.

UPPFÆRT KL. 21:21 Þrír snjóbílar eru á leið inn Fljótshlíð til leitar að konu sem hugðist ganga á skíðum í kringum Mýrdalsjökul. Þeim miðar hægt vegna veðurs og skyggnis. Aðrir snjóbílar sem nýta átti í leitinni eru veðurtepptir við Heimaland. Ekki er talið líklegt að þeir komist af stað fyrr en veður fer að ganga niður seinnipart í nótt. Í ljósi aðstæðna hefur ekki þótt forsvaranlegt að senda vélsleða til leitar.

Fyrri greinRafræn íbúakosning í mars
Næsta greinBúið að opna Þrengslin og Heiðina – Lokað frá Eyjafjöllum að Vík