Konu bjargað úr brennandi íbúð

Fjölmennt lið viðbragðsaðila var sent á vettvang. sunnlenska.is/Helga RE

Reykkafarar björguðu konu úr brennandi íbúð á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Álftarima á Selfossi í nótt. Húsið var rýmt á meðan á slökkvistarfi stóð.

Útkallið barst á miðnætti og var fjölmennt lið viðbragðsaðila sent á staðinn.

RÚV greinir frá því að vitað væri að einn væri inni í íbúðinni og voru reykkafarar sendir inn til að ná í hann. Lögregla sagði í samtali við fréttastofu RÚV að konan hafi verið hætt kominn, því þótt eldurinn hafi ekki verið stór og takmarkaður við eitt svefnherbergi þegar slökkvilið kom á vettvang hafi íbúðin verið full af reyk.

Konan fékk aðhlynningu á bráðamóttöku HSU á Selfossi en grunur lék á að húne hefði fengið reykeitrun.

Slökkvistarf gekk vel og fengu íbúar hússins að fara aftur heim til sín þegar búið var að reykræsta.

Eldsupptök eru ekki kunn en Lögreglan á Suðurlandi rannsakar þau.

Fyrri greinSólvöllum lokað vegna bilunar í fráveitu
Næsta greinMatulis farinn heim