Könnuðust ekki við sláttuvélina, gasgrillið og flatskjáinn í bílnum

Karl og kona voru handtekin á Suðurlandsvegi í Ölfusi seint á laugardagskvöld í bifreið sem konan ók. Hún bar merki þess að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

Í ljós kom að konan hafði verið svipt ökuréttindum og í bílnum voru ýmsir munir sem grunur lék á að væri þýfi.

Parið var yfirheyrt í gær og þar gekkst konan við sviptinga- og fíkniefnaakstrinum. Hins vegar neituðu bæði þjófnaði á þeim munum sem voru í bílnum en gátu ekki gert grein fyrir þeim.

Í bílnum voru meðal annars fartölvur, sláttuvél, gasgrill og flatskjár. Lögreglan lagði hald á hlutina og eru þeir í geymslu í lögreglustöðinni á Selfossi. Sakni einhver slíkra muna þá er hægt að leita upplýsinga hjá lögreglu í síma 444 2010.