Konditorimeistari til starfa

Sænski konditorimeistarinn Märta Grundberg mun verða við störf á veitingastöðunum Kaffi krús og Tryggvaskála á Selfossi næsta mánuð eða svo.

Märta sérhæfir sig í konditori réttum og eftirréttum en heimsókn hennar á veitingastaðin á Selfossi er meðal annars í þeim tilgangi að veita starfsfólki staðanna betri innsýn inn í hágæða konditori framreiðslu.

Sænski meistarinn keppti nýverið í sænskri landskeppni og hafnaði þar í þriðja sæti en hún hefur áður starfað í heimalandi sínu, og í tvö ár í Nýja-Sjálandi.

„Við erum afar spennt yfir því að hafa hana og fá að nýta okkur hennar sérþekkingu og færni,“ segir Tómas Þóroddsson, veitingamaður. Hann segir að kraftar hennar muni nýtast á Kaffi krús yfir daginn, en á kvöldin verð ur hægt að fá eftirrétti hennar í Tryggvaskála.

„Það er okkur dýrmætt að fá svona manneskju til að sýna okkur hvað er nýtt og ferskt í þessum hluta matreiðslunnar,“ segir Tómas.

Meðal þess sem Märta hafði sett í tertur sem blaðamaður fékk að smakka var Tópas snafs, rjómaþeytingur með tyrkneskum piparbrjóstsykri og lakkrís með trönuberjum, og þreföld súkkulaðiterta.

Fyrri grein400. lax sumarsins í Ölfusá
Næsta greinÖruggt hjá Selfossi gegn Þrótti