Konan var með leikfangabyssu

Við rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi hefur komið í ljós að konan sem var handtekin í fjölbýlishúsi við Ástjörn á Selfossi í dag var með eftirlíkingu af skammbyssu í fórum sínum, sem líktist mjög raunverulegu vopni.

Lögreglan vill koma því á framfæri að þessi mikli viðbúnaður vegna málsins sé af eðlilegum toga og farið hafi verið eftir verklagsreglum lögreglunnar við þetta verkefni. Þar er öryggi borgaranna og svo lögreglumannanna sem tókust á við þetta verkefni er haft í fyrirrúmi.

Í skeyti frá lögreglunni segir að tilkynningar sem lögreglu berast um svona mál ber að taka alvarlega og bregðast við með þeim hætti að öryggi allra sé haft að leiðarljósi.