Konan ekki alvarlega slösuð

Ófrísk kona, sem slasaðist í bílveltu rétt austan við Múlakvísl í gærkvöldi, er ekki lífshættulega slösuð.

Vísir.is hefur þetta eftir vakthafandi lækni á bráðamóttöku. Konan var gengin átta mánuði á leið og var í nótt í rannsóknum á kvennadeild Landspítalans.

Ákveðið var að kalla til þyrlu til þess að flytja hana á sjúkrahús eftir slysið í gærkvöldi. Sjúkrabíll flutti konuna að Skógum þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar beið eftir henni og flutti á Borgarspítalann þar sem var lent rétt fyrir miðnætti.

Tvennt var í bílnum þegar hann valt og slapp hinn aðilinn ómeiddur.